Um vefinn

Á tuttugu ára afmæli Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns 1. desember 2014 var opnað fyrir aðgang að íslenskri bókaskrá til 1844. Sögu bókaskrárinnar má rekja aftur til miðrar síðustu aldar en þá hófst vinna við það í Landsbókasafni Íslands að semja bókfræðilega skrá yfir öll rit íslenskra höfunda, rit erlendra höfunda prentuð á íslensku og rit erlendra höfunda á erlendum tungum ef prentuð hefðu verið hér á landi. Fyrsti hluti skrárinnar átti að ná yfir tímabilið frá 1534 til 1844 eða frá upphafi prentunar á Íslandi til þess að prentsmiðjan var flutt frá Viðey til Reykjavíkur. Til stóð að skráin yrði gefin út og var unnið að henni fram á sjöunda áratug aldarinnar og var afrakstur þess fullsett prentsmiðjuhandrit. En skráin kom aldrei út á þessum tíma. Árið 2005 var í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni byrjað að huga að skránni á ný og var fljótlega ákveðið að birta hana með stafrænum hætti á netinu. Í skránni má finna nákvæma bókfræðilega lýsingu á hverju riti og er titill skrifaður upp stafréttur. Auk þess eru athugasemdakaflar við flestar færslur með ýmsum viðbótar upplýsingum um eintök, prentafbrigði, skreytingar, heimildir og fleira.

Heildarfjöldi bóka

2.506

Síðast uppfært

21. des. 2024