Í útdrætti úr bréfi frá Árna Magnússyni til sr. Þorsteins Ketilssonar árið 1729 segir svo: „Corvini bækling yfer Passionem, þrycktann á Br(eida)bolstad hef eg alldrei fyrre sied, og ecke af vitad. enn Postillam epistolicam Corvini hafde eg, sem prentud var i sama Stad, med sỏmu typis, nockrum arum fyrre, ef mig rett minner. og er hún brunnenn.“ Postilla epistolica eftir Corvin hefur ekki varðveist, og eru ekki þekktar aðrar heimildir um útgáfu hennar. Jón Egilsson telur hins vegar í Biskupa annálum „pistlabókina Corvini“ meðal óprentaðra þýðinga Odds Gottskálkssonar, sbr. Safn til sögu Íslands.